Giskað á gervigreindina

Um þrautina

Á jólaleikunum (1) í Laugalækjarskóla í ár fóru nemendur í þrautina Giskað á gervigreindina. Í þessari þraut þurftu nemendur að giska á hvort myndir væru raunverulegar (ljósmyndir) eða búnar til af myndgervigreind til þess að fá stig.

Nemendur þurftu að giska hvort mynd væri ljósmynd eða búin til af myndgervigreind, giska á milli tveggja mynda hvor væri búin til af gervigreind og loks hvaða texti var notaður sem grunnur að gervigreindar mynd.

Þó svo að flestir kennarar séu núna búnir með sína jólaleika eða sitt jólauppbrot er öðrum kennurum frjálst að nota þetta við ýmis önnur tilefni (t.d sem kveikju að verkefni eða í umsjónartíma).

Þessi leikur er bara einföld Google slides kynning; hver spurning er tvær glærur - á þeirri fyrri eiga nemendur að giska og þeirri seinni birtist svarið.
Hlekkur á getraunina:

Smella hér til að opna getraunina

Rökræður og þátttaka

Það sem mér fannst skemmtilegast við þessa þraut var að sjá, í langflestum tilfellum, alla í liðunum taka þátt, spjalla og rökræða um myndirnar. Sum voru mjög örugg með sig og töldu sig geta rúllað þessu upp en höfðu svo ekkert alltaf rétt fyrir sér. Þrautin reyndi líka á það að hópurinn hlustaði á hvort annað og næði saman niðurstöðu, þannig það var ekki bara einn í hópnum sem gat svarað öllu. Það gladdi mig sérstaklega að sjá hlédrægu börnin sem sumum finnst svona uppbrotsdagar erfiðir taka þátt - segja hvaða mynd þau héldu að væri búin til af gervigreind, vera alveg handviss með sitt svar, hafa svo rétt fyrir sér og uppskera hrós frá hópnum sínum.


(1) Jólaleikarnir eru árlegt jólauppbrot í Laugalækjarskóla þar sem öllum nemenendum skólans er blandað saman og skipt í u.þ.b 50 hópa eða lið. Þannig er hvert lið með nemendum úr 7. bekk, 8. bekk, 9.bekk og 10.bekk. Kennarar skólans skipuleggja stöðvar með þrautum á og rúlla liðin í gegnum stöðvarnar sem samsvara fjölda liða. Á stöðvunum reyna nemendur að safna stigum með því að leysa þrautir sem hópur.

Next
Next

20 leiðir fyrir nemendur að nota snjallsíma í skólanum