UT haustbingó

Sumarfrí ☀️og nýr vinnustaður 🏫

Hæ öll 👋

Nú er langt síðan ég hef sett inn færslu hér á síðuna og eru nokkrar ástæður fyrir því. Fyrir sumarfríið var ég einfaldlega á haus í vinnunni eins og eflaust allir kennarar kannast við. Ég og Bjössi Borko tókum að okkur verkefni fyrir Menntamálastofnun sem fól í sér að búa til verkefnabanka sem mun fylgja námsefni um menntun til sjálfbærni. Samtals eru þetta um 40 verkefni sem við bjuggum til og fjalla um undirstöður sjálfbærs samfélags; menningarlegan margbreytileika, jafnrétti, mannréttindi og frið. Námsefnið og verkefnin munu væntanlega birtast bráðlega á vef MMS. Sjálfur er ég mjög stoltur af þessum verkefnabanka 🙌

Þegar sumarfríið gekk svo í garð fann ég að ég þurfti að taka langþráð frí og kúpla mig alveg út. Göngur, sund, Hættu að væla komdu að kæla námskeið og almenn afslöppun var það sem ég þurfti til þess að hlaða aftur batteríið.

Svo tók ég þá ákvörðun að breyta aðeins til og er núna byrjaður að kenna í Laugalækjarskóla. Eftir tæp fjögur ár í Norðlingaskóla fann ég að mig langaði til að prófa að skipta um umhverfi og kynnast öðru skólastarfi. Eftir fyrstu vikurnar í Laugalækjarskóla er ég spenntur að deila með ykkur verkefni sem ég bjó til ásamt nýjum vinnufélögum 😊 Verkefnið fékk titilinn UT Haustbingó og var keyrt með nemendum í 9.bekk í Málinu - sem er heitið á þeim kennslustundum þar sem íslensku, samfélagsfræði, upplýsingatækni og lífsleikni er fléttað saman.


Málið (örskýring) ⚡️

Málið er eins og fyrr sagði heitið á samþættingu fjögurra námsgreina og viðfangsefnum þeirra; íslensku, samfélagsfræði, upplýsingatækni og lífsleikni. Málið er núna að fara af stað í annað skipti og er af frumkvæði Bjössa Borko, sem ég nefndi fyrr í þessari færslu. Með honum í Málinu í fyrra voru Stefán Steingrímur og Nanna Ævarsdóttir sem bæði kenndu og mótuðu Málið með honum.

Kennslufyrirkomulagið er þannig að kennd eru fjölbreytt viðfangsefni sem spanna hvert og eitt nokkrar vikur. Dæmi um viðfangsefni frá í fyrra voru Sagnir og Sjóræningi (málfræði og lestur á Sjóræningjanum eftir Jón Gnarr), Að kjörborðinu(kosninga þema) og Um aldir alda (mannkynssagan frá iðnbyltingu til síðari heimsstyrjaldar) - svo eitthvað sé nefnt.

Þetta ár heldur Málið áfram og erum við núna orðin fimm í teyminu; ég, Tara Brynjarsdóttir, Bjössi, Nanna og Stefán.

UT Haustbingó 🍂

Í fyrstu viku þessa vetrar byrjuðum við að velta fyrir okkur hvernig skynsamlegast væri að byrja Málið. Fljótlega kom upp sú hugmynd að skerpa á færni og kunnáttu nemenda með iPad spjaldtölvur. Sem dæmi má nefna hvernig á að skila á Classroom, ýmis grunnatriði í Google Drive (s.s skipulagning), Google Calendar og Google Keep, og að sjálfsögðu Keynote, Garageband og iMovie.

Markmiðið og hugsunin okkar var að búa til grunn hjá nemendum fyrir skapandi og skipulagða vinnu. Því lögðum við teymið höfuðið í bleyti og ákváðum 9 þætti sem við lögðu upp með að þau fengju að kynnast og æfa; Classroom, Google Drive, Google Calendar, Google Keep, Books, iMovie, Keynote, Garageband og ýmis snjallræði í iPad.

Kennsluefnið bjuggum við sjálf til og er það samblanda af texta, myndum og kennslumyndböndum. Eins og flestum lesendum þessarar síðu kemur væntanlega ekki á óvart þá er ég mjög nýjungagjarn þegar kemur að tækni verkfærum. Til þess að miðla efninu bjuggum við til síðu með forriti sem er orðið eitt mikilvægasta verkfærið mitt núna og það heitir Craft (útskýring á því og hvernig ég nota það til að hjálpa mér að halda utan um öll verkefnin í vinnunni er efni í aðra færslu 😅). Á þessari síðu gátu nemendur fundið allt sem þau þurftu að vita um hvert og eitt verkfæri ásamt verkefnum sem þau áttu að ljúka við. Nemendur notuðu þessa síðu til þess að klára verkefna bingóspjald sem Bjössi setti upp af mikilli snilld og skiluðu samtals 9 skjáskotum af sinni vinnu inn á Classroom.

Yfirferðin var mjög einföld; við renndum í gegnum skjáskotin í skilahólfi hvers nemanda og ef allt leit að mestu leyti vel út var verkefninu lokið ✅   

Sjálfur er ég hæst ánægður með þetta verkefni og finnst það vera skynsamleg byrjun á vetrinum - þ.e að kenna nemendum á þessi grunnverkfæri sem þau munu þurfa að nota. Núna þegar nokkrar vikur eru liðnar síðan við keyrðum verkefnið með nemendum sjáum við að það hefur klárlega skilað sér að byrja á þessari vinnu.

Vonandi hafið þið ánægju og gagn af þessari síðu. Að vanda er öllum kennurum frjálst að nota þetta verkefni með sínum nemendum. Þegar þið opnið bingóspjaldið getið þið tekið afrit af verkefninu og breytt eftir eigin höfði 😊

Previous
Previous

Örviðtal: Björn Kristjánsson

Next
Next

🌍 5 kennslublogg til að fylgjast með