Námshlaðborð

Ég er og hef verið þeirrar skoðunar, eins og eflaust miklu fleira skólafólk, að nemendur eigi að njóta þess að hafa fjölbreytt val í sínu námi. Að þau fái í meiri mæli að velja sjálf hvað þau vilji læra, velji sjálf hvarþau vilji byrja, hvert þau vilji halda áfram næst, og ekki síst fái fjölbreyttar leiðir til þess að tjá það sem þau hafa læra (hvernig), sem vonandi líka hvetja til sköpunar og að þeirra styrkleikar fái að þroskast.

Í svolítinn tíma hef ég verið að leika mér að þessari hugmynd um aukið val og prófa mig áfram með mismunandi útfærslur til að koma þessari sýn í verk í kennslustofunni. Útfærsluna hef ég kallað hlaðborð og ætla ég að sýna ykkur og segja frá tveimur svona hlaðborðum sem ég hef gert. Í þessum hlaðborðum fléttast saman aðrar pælingar og tilraunir, m.a með rafræna kennsluhætti, einstaklingsmiðun og löngun minni til þess að miðla fjölbreyttu og ekki síst skemmtilegu efni til nemenda (þ.e að gera námið skemmtilegt og fjölbreytt).

Íslensku hlaðborð

Fyrra hlaðborðið sem ég ætla að deila með ykkur er fyrsta útfærslan af þessari hlaðborðs hugmynd. Verkfærið sem ég notaði til þess að setja fram hlaðborðið heitir Padlet og er ég mjög hrifinn af því þar sem ég get miðlað öðru efni á netinu á skýran og fjölbreyttan hátt. Ef þið hafið ekki skoðað Padlet áður það þá er verkfærakistan fyrir skapandi verkefnaskil dæmi um síðu búna til í Padlet. Mig langar að koma því að hér að ég vildi óska þess að kennarar þyrftu ekki sjálfir að borga fyrir áskriftir af öllum þessum snilldar lausnum sem eru til á netinu og geta á einfaldan hátt „kryddað“ nám – eins og Padlet, Quizlet, Kahoot eða annað.

Hlaðborðið var keyrt í íslensku í unglingadeild fyrr á þessu ári og gaf að mínu mati góða raun. Ég útskýrði fyrir nemendum að þau fengju núna þriggja rétt máltíð á veitingastað og máttu velja sér forrétt, aðalrétt og eftirrétt (markmiðið var að útskýra hlaðborðið á skemmtilegan hátt en líka að allir veldu sér þrjá rétti). Þannig hver og einn byrjaði á því að velja hverju þau vildu byrja á; lesa, hlusta eða horfa (dálkarnir þrír) og svo hvert þau vildu fara eftir það. Í hverjum dálki voru stutt fyrirmæli fyrir úrvinnslu hlutann og þar eftir fréttatextar, hlaðvarpsþættir og sjónvarpsþættir sem hægt var að velja um. Allt efnið sótti ég af vef Ríkisútvarpsins.

Ensku hlaðborð

Seinna hlaðborðið gerði ég núna nýlega fyrir nemendur í 9.bekk í ensku. Grunn hugmyndin er sú sama og með hlaðborðið hér á undan en með nokkrum breytingum.

Í fyrsta lagi vildi ég það væri sameiginleg vinna í kringum viðfangsefni sem mér fannst þarft að tala um með nemendum en mikil feimni er að ræða; af hverju upplifum við einmanaleika og hvað er hægt að gera? Afurðin átti að vera sameiginlegur veggur þar sem allir settu nafn sitt og áhugamálin sín á post-it miða og hengdu upp á vegg (tilraun til þess að brjóta ísinn á milli nemenda og gefa þeim tækifæri til að kynnast öðrum). Þannig byrjuðu allir á sama stað áður en þau völdu.

Í öðru lagi langaði mig til þess að koma að meira vali um hvernig þau myndu tjá það sem þau lærðu. Eins og sést í dálkunumread og listen velja nemendur um fjórar leiðir til þess að tjá sig um efnið sem ég setti með; búa til orðakort (flashcards), taka upp stutt myndbönd, útskýra (skrifa eða tala) og sýna skilning sinn með myndrænum hætti (hugarkorti, sketchnote eða teikningu).

Í næst síðasta flokknum, imagine, langaði mig til þess að nemendur spreyttu sig á skapandi hátt með því að velja hrekkjavökumynd og búa til sögu út frá henni. Myndirnar fékk ég af New York Times Learning Network sem ég hvet alla til þess að skoða og nota. Fjórði og síðasti flokkurinn, gallery walk, var tilraun til þess að nota allt of vannýtta kennsluaðferð en ég hafði hengt upp myndir um skólann með ýmsum spurningum sem nemendur áttu að velja sér og bregðast við annað hvort með ritun eða myndbandi.

Lokaorð

Eins og alltaf þá eru öðrum kennurum frjálst að nota þetta efni í sinni kennslu. Ég tek glaður á móti spurningum, ábendingum og tillögum í tölvupósti á reyrhelgi@gmail.com.

Previous
Previous

Kennsluáætlanir með Padlet

Next
Next

Örviðtal: Hildur Arna Håkansson: