Hlaðvarpssmiðja
Í þessu verkefni fá nemendur tækifæri til þess að búa til 10 mínútna hlaðvarpsþátt.
íslenska, upplýsinga- og tæknimennt, lykilhæfni
Í þessu verkefni fá nemendur tækifæri til þess að búa til 10 mínútna hlaðvarpsþátt.
íslenska, upplýsinga- og tæknimennt, lykilhæfni
🔑 Lykilhæfni: Tjáning og miðlun, sjálfstæði og samvinna, skapandi og gagnrýnin hugsun, nýting miðla og upplýsinga.
Hlaðvörp eru mjög gagnleg í kennslu og því þau bjóða upp á fjölbreytt tækifæri til náms. Ekki einungis er hlaðvarpsheimurinn auðlind af náms- og kennsluefni heldur má einnig nýta þau sem leið fyrir nemendur til að tjá sig og æfa sig í skapandi stafrænni miðlun. Hér ætla ég að deila með ykkur verkefni sem ég hef notað með nemendum mínum þar sem þau búa til sitt eigið hlaðvarp.
Þegar ég hef verið með hlaðvarpssmiðju með nemendum mínum hafa markmiðin fyrst og fremst verið að þjálfa samvinnu, munnlega tjáningu og að miðla upplýsingum á skapandi stafrænan hátt. Nemendum finnst yfirleitt skemmtilegast að fá að vinna saman og fá að búa til þátt um sín eigin hugðarefni.
Gagnvart nemendum geta námsmarkmiðin verið:
Að búa til 8 til 10 mínútna fræðslu hlaðvarpsþátt.
Hanna lógó og inngangsstef fyrir hlaðvarpsþátt.
Að skilja hvernig hlaðvarp getur nýst í námi og til að miðla fróðleik.
Ég hef yfirleitt verið frekar skýr með að nemendur undirbúi þættina sína vandlega og ekki í flýti. Það er líka hluti af því sem við erum að læra: þ.e.a.s að skipuleggja það sem við viljum tala um, segja frá á skýran og skipulegan hátt, og vanda vinnuna okkar þannig að aðrir nenni nú að hlusta á okkur.
Það er mjög misjafnt hversu langur tími hefur farið í svona smiðju. Ég hef keyrt hana á þremur vikum (tvær 40 mín kennslustundir í viku) og tíminn mætti ekki vera minni. En það er að sjálfsögðu líka hægt að keyra hana yfir lengri tíma.
Yfirleitt byrjar vinnan á hugstormun og að nemendur ræði sig saman á hugmynd að viðfangsefni og tegund þáttar. Ég hef notað þessa hér vinnubók frá Oddi Inga kennara til stuðnings og notað úr henni eftir því hvað tíminn er langur. Í þessa bók er líka vísað í verkefninu hér að ofan.
Gróflega er ferlið svona:
Samvinna eða ekki? - Nemendur ákveða hvort þau vilji vinna saman eða einstaklingslega.
Forþekking - Nemendur ræða saman um hvaða þætti þau þekkja eða hafa sjálf hlustað á. Hvað eru viðfangsefni þáttanna, hvað einkennir þá og hvernig er formið á þáttunum?
Hugstormun - Nemendur hugstorma viðfangsefni og tegund á eigin þáttum.
Lyfturæða - nemendur segja frá sinni hugmynd að þætti.
Handrit - Nemendur gera handrit eða útlínur að þætti - allt eftir hvers eðlis þátturinn er.
Æfingar og upptökur - Nemendur æfa sig og taka loks upp þáttinn sinn. Hægt er að nota Canva, Garageband, iMovie eða símann sinn.
Eftirvinnsla - Nemendur klippa þáttinn ef þarf, búa til stef fyrir þáttinn og logo.
Skil - Hlaðvörpum skilað. Hér er ýmislegt hægt að gera eins og að bjóða nemendum að skiptast á að hlusta á þætti annarra og skrifa umsagnir (lof og last).
Eftirfarandi hæfniviðmið er hægt að nota við námsmat í þesu verkefni:
Íslenska
Talað mál, hlustun og áhorf.
Framsögn
Nemandi getur flutt mál sitt skýrt og áheyrilega með viðeigandi talhraða, tónfalli, áherslum og fasi.
Viðmið um árangur: Í hlaðvarpsþættinum tala ég skýrt þannig að hlustandi skilur það sem sagt er.
Tjáning
Nemandi getur miðlað þekkingu sinni og reynslu, tjáð hugmyndir sínar og skoðanir og fært rök fyrir þeim með fjölbreyttum leiðum,
Viðmið um árangur: Í hlaðvarpsþættinum er talað um eitt viðfangsefni og koma fram umræður um það.
Hlustun og áhorf
Nemandi getur horft á, hlustað og tekið eftir upplýsingum í fjölbreyttu efni og greint og miðlað innihaldi þess á gagnrýninn hátt,
Viðmið um árangur: Ég hlustaði á þátt/þætti eftir bekkjarfélaga mína og gat sagt frá innihaldi og/eða gefið endurgjöf.
Upplýsinga- og tæknimennt
Sköpun og miðlun
Hljóðvinnsla
Nemandi getur valið og nýtt tæki og hugbúnað við fjölbreyttar upptökur og hljóðvinnslu.
Viðmið um árangur: Ég tók upp einn hlaðvarpsþátt og skilaði honum til kennara.
Myndvinnsla og myndsköpun
Nemandi getur valið og nýtt tæki og hugbúnað við fjölbreytta hönnun, myndvinnslu og myndsköpun,
Viðmið um árangur: Ég bjó til logo eða mynd sem fylgir hlaðvarpsþættinum og endurspeglar efni þáttarins.
Lausnaleit
Tölvur og snjalltæki
Nemandi getur nýtt fjölbreyttan og viðeigandi tækjabúnað til menntunar og leyst tæknileg úrlausnarefni,
Viðmið um árangur: Ég tók upp einn hlaðvarpsþátt og skilaði honum til kennara.